Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur hefur tekið við starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands á yfirstandandi vormisseri. Hún mun vinna með ritlistarnemum að ritun sögulegra skáldverka.
Árið 2015 stofnaði Hugvísindasvið Háskóla Íslands til starfs sem kennt er við Jónas Hallgrímsson, eitt ástsælasta ljóðskáld Íslendinga fyrr og síðar. Starfið er ætlað rithöfundum sem taka að sér að vinna með nemum í ritlist eitt eða tvö misseri í senn. Fyrstur til að gegna starfinu var Sigurður Pálsson skáld.
Vilborg hefur sérhæft sig í ritun sögulegra skáldsagna þar sem konur eru miðsviðs. Fyrsta bók hennar, skáldsagan Við Urðarbrunn, kom út árið 1993 og framhald hennar, Nornadómur, árið eftir. Þær gerast um aldamótin 900 og segja frá baráttu ambáttarinnar Korku Þórólfsdóttur fyrir betra lífi og fylgja henni eftir úr ánauð á Íslandi til Heiðabæjar í Danmörku og heim aftur um Suðureyjar og Orkneyjar til frelsis og landnáms á Vestfjörðum. Þriðja bók Vilborgar er Eldfórnin (1997), söguleg skáldsaga sem byggir á atburðum sem urðu í Kirkjubæjarklaustri á 14. öld þegar nunna var brennd þar á báli, og sú fjórða Galdur (2000) sem sömuleiðis byggir á sögulegum atburðum og gerist í Skagafirði á 15. öld þegar Englendingar réðu lögum og lofum á Íslandi. Fimmta skáldsaga hennar, Hrafninn (2005), er byggð á heimildum um lífshætti inúíta og norrænna manna á Grænlandi um miðja 15. öld og örlögum byggðanna sem stofnað var til þar af landnámsfólki frá Íslandi um árið 1000. Næst kom skáldsagan Auður (2009) sem fjallar um uppvaxtarár Auðar Ketilsdóttur djúpúðgu á eynni Tyrvist undan Skotlandsströndum. Framhald hennar, Vígroði, kom út haustið 2012.
Auk þessa að hafa skrifað sögulegar skáldsagur hefur Vilborg þýtt þrjár bækur og skrifað fjölda greina. Nýjasta bók hennar, Ástin, drekinn og dauðinn, kom út 2015.