Viltu fá ljóðið þitt birt í ljóðstöðumæli á Nýja Sjálandi?
Poetick er tilraunaverkefni í borginni Dunedin á Nýja Sjálandi, sem er ein af Bókmenntaborgum UNESCO. Það felst í því að ljóð eru prentuð á stöðumælakvittanir, litlu miðana sem fólk fær úr greiðsluvélum og kemur svo fyrir í bílum sínum. Markmiðið er að breiða út ljóðlistina og gera hana að hluta af daglegu lífi fólks um leið og þessi hversdagslega athöfn sem fólk lítur oft neikvæðum augum er gerð skemmtileg með þessum óvæntu skilaboðum.
Ungur hönnuður, Ben Alder, stendur að verkefninu ásamt nokkrum öðrum hönnuðum og þeir leita nú eftir ljóðum frá öðrum Bókmenntaborgun UNESCO til að prenta á miðana.
Fyrst um sinn er aðeins um eina greiðsluvél að ræða sem er sett upp sem sýningargripur á Toitu Otaga Settlers Museum í Dunedin. Markmiðið er að verkefnið fái vængi og verði í framtíðinni ekki eingöngu að veruleika í Dunedin heldur einnig í öðrum borgum hvar sem er í heiminum.
Ljóðskáld í Reykjavík sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu geta sent inn ljóð til aðstandenda Poetick á netfangið team@poetick.org.
Miðarnir eru litlir og því þurfa ljóðin að vera stutt (undir 60 orðum). Eingöngu er tekið við ljóðum á ensku. Á miðanum kemur fram hver orti ljóðið og frá hvaða borg skáldið er.
Í stiklunni hér fyrir neðan má sjá hvernig ljóðstöðumælarnir virka: