Í dag var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni að Viðurkenningu Hagþenkis 2015 hlyti Páll Baldvin Baldvinsson fyrir ritið, Stríðsárin 1938–1945 sem útgefin eru af JPV forlagi.
Þetta er í 29. sinn sem Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, veitir viðurkenningu fyrir „fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings“.
Formaður Hagþenkis, Jón Yngvi Jóhannsson veitti viðurkenninguna fyrir hönd félagsins. Kristín Svava Tómasdóttir formaður viðurkenningaráðs flutti greinargerð ráðsins 2015 sem auk hennar skipuðu þau, Baldur Sigurðsson málfræðingur, Kristinn Haukur Skarphéðinsson náttúrufræðingur, Þorbjörn Broddason félagsfræðingur og Þórunn Blöndal íslenskufræðingur.
Í ályktunarorðum Viðurkenningarráðs segir meðal annars:
„Það er vart hægt að ofmeta mikilvægi síðari heimsstyrjaldarinnar í íslenskri sögu. Í viðskipta- og hagsögu, stjórnmálasögu, félagssögu, kvenna- og kynjasögu, menningarsögu, byggðasögu – frá öllum þessum sjónarhornum og fleirum til var síðari heimsstyrjöldin boðberi mikilla breytinga. Hún hefur verið talin marka innreið neyslusamfélagsins á Íslandi, borgarsamfélagsins, nútímasamfélagsins.
Og það er frá öllum þessum sjónarhornum – og fleirum til – sem styrjaldarárin eru skoðuð í þessari stóru bók, sem dregur upp breiða og fjölbreytta mynd af þessum umbrotatíma í íslensku þjóðfélagi. Í örstuttum eftirmála líkir höfundur aðferð sinni við myndvef; myndbrotum og sögubrotum er raðað saman í margslungna heildarmynd.“
„Í þessu umfangsmikla verki er dregin upp fjölbreytt og áhrifarík mynd af ljósum og dökkum hliðum stríðsáranna, samfélagslegum átökum og örlögum einstaklinga.“
Verðlaunahafinn Páll Baldvin Baldvinsson sagði meðal annars þegar hann tók á móti Viðurkenningunni:
„ Að góðu verki loknu er sætt að finna þakklæti og viðurkenningu alþýðu manna. Það er umbun í sjálfu sér, en minnir okkur líka á að verk okkar eru endurgjald til samfélagsins fyrir uppeldi okkar og menntun sem við megum vera þakklát fyrir því þess atlætis njóta ekki öll mannanna börn.“
Eftirfarandi tíu bækur voru tilnefndar til Viðurkenningarinnar 2015:
Landnám og landnámsfólk. Saga af bæ og blóti eftir Bjarna F. Einarsson.
Íslenskir sláttuhættir eftir Bjarna Guðmundsson.
Þegar siðmenningin fór fjandans til. Íslendingar og stríðið mikla 1914–1918 eftir Gunnar Þór Bjarnason.
Passíusálmarnir eftir Hallgrím Pétursson, en umsjónarmaður útgáfunnar var Mörður Árnason.
Lífsþróttur, næringarfræði fróðleiksfúsra eftir Ólaf Gunnar Sæmundsson.
Stríðsárin 1938–1945 eftir Pál Baldvin Baldvinsson.
Rof. Frásagnir kvenna af fóstureyðingum í ritstjórn Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunnar Rögnvaldsdóttur.
Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 eftir Smára Geirsson.
Ég skapa — þess vegna er ég. Um skrif Þórbergs Þórðarsonar eftir Soffíu Auði Birgisdóttur.
Heiður og huggun. Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld eftir Þórunni Sigurðardóttur.
Um viðurkenningu Hagþenkis: Hagþenkir– félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis er skipað fimm félagsmönnum sem ákvarðar tilnefningarnar tíu og hvaða höfundur og rit hlýtur að lokum viðurkenningu Hagþenkis. Ráðið hefur fundað reglulega síðan um miðjan október til að kynna sér útgáfu ársins og er ævinlega úr vöndu að ráða.
Viðurkenning Hagþenkis telst til virtustu og veglegustu verðlauna sem fræðimönnum og höfundum kennslugagna getur hlotnast hér á landi.