Quantcast
Channel: Bókmenntaborgin
Viewing all articles
Browse latest Browse all 163

Andri Snær Magnason verðlaunaður

$
0
0

LoveStar hlýtur Grand Prix de l’Imaginaire

Skáldsagan LoveStar eftir Andra Snæ Magnason hlýtur frönsku fantasíuverðlaunin Grand Prix de l’Imaginaire í ár. Éric Boury þýddi söguna á frönsku.

Grand Prix de l’Imaginaire eru elstu bókmenntaverðlaun Frakklands sem enn eru við lýði. Þau voru stofnuð árið 1974, starfa sjálfstætt og eru veitt í tíu flokkum. LoveStar hlýtur þau í flokki þýddra skáldsagna. Að mati dómnefndar er LoveStar besta og hugmyndaríkasta erlenda vísindaskáldsagan sem komið hefur út í Frakklandi síðustu 12 mánuði.

Orðið „Imaginaire“ í nafni verðlaunanna vísar til ímyndunaraflsins og sköpunargleðinnar, vísindaskáldsagna, fantasía og furðubókmennta . Meðal tilnefndra höfunda í þetta sinn eru China Miéville og Michel Faber, en verðlaunin hafa áður fengið höfundar á borð við Kim Stanley Robinson, China Miéville, Orson Scott Card, Neal Stephenson og Clive Barker.

Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á Étonnants Voyageurs hátíðinni í Saint-Malo næstkomandi sunnudag, 15. maí, kl. 18.00.

LoveStar kom út á Íslandi hjá Forlaginu árið 2002 en franska útgáfan hjá Zulma 2015.

LoveStar AndriSnær2016

Um LoveStar

Alþjóðlega stórfyrirtækið LoveStar hefur komið Íslandi á heimskortið – markaðssett dauðann, komið skipulagi á ástina og reist stórfenglegasta skemmtigarð sögunnar í Öxnadal þar sem LoveStar blikkar á bak við ský. Indriði og Sigríður eru handfrjálsir einstaklingar í þessu hátæknivædda samfélagi. Þau telja sig hafa fundið ástina upp á eigin spýtur þar til hræðilegt bréf berst frá stórveldinu. Á sama tíma er LoveStar sjálfur um það bil að gera stærstu uppgötvun allra tíma og stemningsdeildin hefur stórfenglegar áætlanir um hvernig megi fullkomna LoveStar veldið. Og tíminn er naumur…

Bókin hlaut Menningarverðlaun DV 2002 og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana sama ár. Þá var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 163