Hamingjustund með skrifum
Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Bókmenntahátíð í Reykjavík bjóða upp á ritlistarsamkomu og hamingjustund (a happy writing hour) með bandaríska rithöfundinum Willonu Sloan. Smiðjan fer fram í Iðnó fimmtudaginn 10. september kl. 17-19. Þátttakendur koma saman á hátíðarbarnum á loftinu í Iðnó, skrifa, gæða sér á drykk ef þeir vilja og lesa svo örlítið upp fyrir hópinn.
Willona Sloan er gestgjafi og leiðbeinandi í þessu bókmenntaboði en hún stendur fyrir slíkum samkomum og öðrum bókmenntaviðburðum í heimaborg sinni, Washington DC.
Allir eru velkomnir, óháð fyrri reynslu af skrifum, en þar sem plássið er takmarkað þarf að skrá þátttöku. Ekkert kostar að taka þátt en greiða þarf fyrir drykki.
Skráning og nánari upplýsingar: bokmenntaborgin@reykjavik.is.
Willona Sloan
Willona býr og starfar í Washington DC. Hún er rithöfundur og blaðamaður. Hún hefur gefið út skáldskap og greinar í blöðum og tímaritum ásamt rafbókinni Come to Our Show: Punk Show Flyers from D.C. to Down Under. Willona hefur staðið fyrir fjölda ritsmiðja og bókmenntaviðburða í heimaborg sinni.
Willona var Artist Fellow hjá D.C. Commission on the Arts and Humanities og gestarithöfundur í Banff Centre for the Arts í Alberta í Kanada.