Quantcast
Channel: Bókmenntaborgin
Viewing all articles
Browse latest Browse all 163

Stefán Máni hlaut Blóðdropann

$
0
0

Blóðdropinn 2014, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags, var afhentur í aðalsafni Borgarbókasafns Reykjavíkur nú fyrir stundu, föstudaginn 4. júlí.

Dómnefndin var sammála um aðverðlauna að þessu sinni Stefán Mána fyrir bók hans Grimmd og verður bókin jafnframt framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins árið 2015.

Hér fer rökstuðningur dómnefndarinnar:

“Hörku glæpasaga með eðal andhetju sem lesandinn fær að kynnast inn að beini og fylgjast með allt frá erfiðri barnæsku sem mótar hann til langframa. Lesandinn fær mikla samúð með andhetjunni þótt hún sé misvönd að meðulum sínum við að leysa aðsteðjandi vandamál.

Lesandinn er sendur í æsandi ferðalag um Stór-Reykjavíkursvæðið og þvert yfir Ísland og spennan magnast með hverri blaðsíðu. Líkt og í fyrri bókum Stefáns Mána er mikið um ofbeldi í þessari bók og honum tekst sem fyrr að vekja upp viðbjóð með gróteskum lýsingum og gerir það listilega og eftirminnilega. En samt er manngæska ekki langt undan og jafnvel versta fólk á sínar góðu hliðar.

Ein sterkasta hlið Stefáns Mána er persónusköpun hans og þar með tilgerðarlaus og eðlileg samtöl sem fá söguna til að flæða mjög eðlilega. Persónum sögunnar er lýst mjög nákvæmlega og myndrænt með þeim afleiðingum að lesandinn kynnist þeim mjög vel, auk þess sem sögusviðið er trúverðugt og mótast skýrt í huga þess er les.

Dómnefndin sannreyndi sjálf að ýmis hús, staðir og jafnvel umferðareyjur eiga sínar raunverulegu fyrirmyndir, hvort sem er í Reykjavík eða á öðrum stöðum á landinu.

Þetta er hörkuspennandi saga sem heldur lesandanum á ystu nöf allt til enda.”

Stefán Máni hlýtur nú Blóðdropann í þriðja sinn, en áður hefur hann fengið verðlaunin fyrir skáldsögurnar Húsið (2013) og Skipið (2007). Eins og áður segir verður Grimmd framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins á næsta ári.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 163