Eitt af stærri verkefnum Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO er að standa fyrir árlegri lestrarhátíð í Reykjavík í samvinnu við stofnanir, félagasamtök og aðra sem starfa á bókmenntasviðinu. Markmið Lestrarhátíðar er að hvetja til lesturs, auka umræðu um bókmenntir og tungumál og síðast en ekki síst að vekja athygli á gildi orðlistar í menningaruppeldi og daglegu lífi.
Hátíðin er hugsuð sem grasrótarhátíð þar sem allir þeir sem vilja bjóða upp á viðburði og dagskrá sem tengist þemanu hverju sinni geta tekið þátt.
Hátíðin stendur allan mánuðinn og októbermánuður er því mánuður orðlistar í Reykjavík.
LESTRARHÁTÍÐ 2014 – TÍMI FYRIR SÖGU
Að þessu sinni verður Lestrarhátíð helguð ritlist og smásögum undir heitinu TÍMI FYRIR SÖGU, með áherslu á stutta prósatexta sem hægt er að næra sig með hvar og hvenær sem er í dagsins önn.
Þórarinn Eldjárn, meistari smásögunnar, vinnur með Bókmenntaborginni í ár og velur safn skemmtilegra smásagna sem verða gefnar út á rafbók 1. október. Bókin, sem heitir Eins og Reykjavík, hefur að geyma sögur eftir fjölmarga íslenska höfunda og verður hægt að næla sér í ókeypis eintak hjá eBókum fyrstu tvær vikurnar í október.
Nestisboxið, smásagnasafn á vef Bókmenntaborgarinnar, verður stútfullt af örsögum og stuttum smásögum sem passa til aflestrar í matar- eða kaffitímanum. Vinnustaðir og hópar geta brugðið á leik með Nestisboxið og fólk lesið upp sögur hvert fyrir annað. Í borgarlandinu verður stuttum textum varpað upp á nokkrum stöðum til að lífga upp á skammdegið og í Kringlunni, sem verður miðpunktur hátíðarinnar, verður brugðið á leik með orð og sögur.
Meðal þess sem Bókmenntaborgin býður upp á í október er stórskemmtileg sýning í Norræna húsinu í tengslum við Lestrarhátíð og Barnabókahátíðina Mýrina. Sýningin, sem ber heitið Orðaævintýri, er miðuð að börnum á aldrinum 5 – 12 ára. Á sýningunni hittum við fyrir alls kyns orð, sum eru litaglöð og fyrirferðamikil, fýld, glöð, væn, tillitsöm eða jafnvel kelin. Boðið verður upp á vinnustofur, sögutjald og leiðsögn um sýninguna fyrir skólahópa. Sýningin opnar þann 4. október og stendur til 23. nóvember.
Við munum skoða smásögur frá ólíkum löndum. Café Lingua tekur þátt í Lestrarhátíð í ár og segir félagið Hola frá spænskum sögum við upphaf hátíðarinnar, þann 1. október.
Smásagnaverkefnið Transgressions verður í kastljósinu í lok október en það er samstarfsverkefni milli Bókmenntaborgarinnar og Smásagnahátíðarinnar í Wrocław í Póllandi. Af þessu tilefni hafa Þórarinn Eldjárn, Kristín Eiríksdóttir og Halldór Armand Ásgeirsson skrifað smásögur sem verða birtar í mánuðinum svo og pólsku höfundarnir Piotr Pazinski og Ziemowit Szczerek. Þeir munu heimsækja Reykjavík í lok október og verður bókmenntakvöld með öllum þessum höfundum í lok mánaðarins.
Ritlistin verður í hávegum höfð og býður Bókmenntaborgin upp á fjölbreyttar ritsmiðjur fyrir unga sem aldna, í samvinnu við Söguhring kvenna, furðusagnahöfundinn Emil Hjörvar Petersen og Davíð Stefánsson ljóðskáld og smásagnahöfund.
Þá mun Bókmenntaborgin vinna með RIFF og einnig verður leikhúshátíðin All Change Festival hluti af Lestrarhátíð í ár.
Dagskrá Lestrarhátíðar í Bókmenntaborg 2014 birtist hér á vefnum föstudaginn 19. september.
FYRRI HÁTÍÐIR
- See more at: http://bokmenntaborgin.is/lestrarhatid-bokmenntaborg/#sthash.awginWsX.dpuf