Ljóðaveggur á aðaltorginu í Kraká
Á aðaltorginu í Kraká er nú hægt að lesa brot úr ljóðum eftir skáld frá öllum sjö Bókmenntaborgum UNESCO. Bókmenntaborgin Kraká hefur veg og vanda að þessu verkefni í samstarfi við hinar borgirnar sex: Dublin, Edinborg, Iowa City, Melbourne, Norwich og Reykjavík. Næstu mánuðina verður hægt að lesa brot úr einu ljóði á dag í fyrstu viku hvers mánaðar eftir skáld frá þessum sjö borgum. Ljóðunum er varpað á byggingu á horni Bracka strætis og aðaltorgins Rynek, eða markaðstorgsins eins og það er oft nefnt á íslensku. Ljóðabrotin eru birt á ensku og pólsku.
Verkefnið hófst þann 1. ágúst og þessa fyrstu viku verður ljóðið Nótt eftir Gerði Kristnýju framlag Reykjavíkur til verkefnisins. Broti úr því verður varpað upp þriðjudaginn 5. ágúst.
Birting ljóðanna er hluti af verkefninu MULTIPOETRY sem hefur verið í gangi á þessum stað frá árinu 2002, en það er rekið af Poemat Foundation. Upphaf þess var verkefnið 365 ljóð á 365 dögum, sem Michał Zabłocki stóð fyrir en það fólst í því að frumbirta ljóð á tveimur byggingum á fjölförnum stöðum í Kraká og Varsjá. Þannig gaf Zabłocki út heilt ljóðasafn sem birtist smám saman í borgarlandi þessara tveggja borga. Allar götur síðan hefur ljóðum verið varpað á þessa sömu byggingu í Kraká, hvern dag ársins.
Multipoetry verkefnið fellur einkar vel að starfi Bókmenntaborga UNESCO, en einn lykilþátta þess er að stuðla að alþjóðlegri samvinnu á bókmenntasviðinu. Hugmyndin kviknaði á ráðstefnunni Creative Cities and Regions í Kraká í október 2012 og er nú loks orðin að veruleika.
Sjá nánar á vef Mulitpoetry.
Skipuleggjendur Ljóða frá Bókmenntaborgum UNESCO eru Krakow Festival Office og Poemat Foundation í samstarfi við Bókmenntaborgirnar Dublin, Edinburgh, Iowa City, Melbourne, Norwich og Reykjavík.